top of page
1239053E-D66C-4D89-9C92-ABF2269C9DAF.jpeg
7942038A-8BB6-4142-9279-79CBCA328612.jpeg
0ABAD9CB-9C22-479B-ACF7-D42A8347B697.jpeg
C8830E70-31A3-4279-B973-126CF0D8DD2B.jpeg
D885CBCB-CFCC-4FAC-8BB5-2CD7C2E4E70D.jpeg
BD1CCC76-7606-454B-9995-E3AAB4F62421_4_5005_c.jpeg
ACA71861-6544-4546-9760-F03787A6D6BC.jpeg
F3577B54-B3A2-443E-8C33-0C50998C095D.jpeg
13FDD984-436F-44D9-BCF8-B46FA477E7A2.jpeg
945FF3D3-07B8-4E78-8056-91D34F52B57A.jpeg
01FA1C82-9ECE-4B03-8376-BC1E53FBFCD1.jpeg
A515E484-E369-4220-BA04-4ECE8AA78B43.jpeg
F02E69AF-BDBD-432C-A15B-5152DF5EDDD1.jpeg
C2C996D1-B307-4A63-A975-C2C1D7EAA1ED.jpeg
032F81D0-EFD9-4312-87A1-68E54DA2F58F.jpeg
B40C34A4-5EC5-43A0-AD70-B0237D84412B.jpeg
D36C396B-440B-4E93-BF8E-F5C12C252A7C.jpeg
FF0A4685-A850-4F51-BB92-0A1D8FC2BFC0.jpeg
FA2534A6-744C-4060-9FBE-FC9E665C1698.jpeg
E3A9AD60-7E98-4A0F-8693-D1C8CEF0B26F.jpeg
ACF44FC2-9B96-425F-A2F5-47D48A818201.jpeg
D9F8BA67-7F9C-416D-8C3F-01C13FEC9C6D.jpeg

Tveir glataðir samningar Sjálfstæðismanna í Hveragerði

Birt í Dagskránni, DFS.is og á Krumminn.is 23. september 2020

Á tveimur fundum bæjarráðs Hveragerðis nú í sumar samþykkti meirihluti Sjálfstæðisflokksins tvo samninga sem eru að mati undirritaðra afar óhagstæðir fyrir bæjarfélagið og þar með íbúa. Auk þess teljum við það verulegt álitamál hvort að sveitarfélag eigi yfirhöfuð að gera slíka samninga.

 

Samningur við Reykjadalsfélagið

Á fundi bæjarráðs þann 18. júní sl. var tekinn fyrir aðstöðu- og þjónustusamningur við Reykjadalsfélagið, handahafa lóðarinnar Árhólma 1 í Ölfusdal sem er við upphaf gönguleiðarinnar inn í Reykjadal. Meirihluti Sjálfstæðisflokksins stóð einn í samningaviðræðum við Reykjadalsfélagið en fulltrúar minnihlutans höfðu ekki aðkomu að þeim viðræðum. Fyrstu drög að samningi voru lögð fyrir bæjarráð þann 18. júlí 2019. Megininntak þessara fyrstu draga var að Hveragerðisbær myndi fela Reykjadalsfélaginu einkarétt á innheimtu bílastæðagjalda, sem sveitarfélagið áformaði að innheimta á lóðinni, og var lagt upp með það í samningnum að félagið tæki meirihluta þeirra tekna í sína sjóði. Það var mat bæjarfulltrúa Okkar Hveragerðis að það væri óeðlilegt að einkaaðilar tækju meirihluta tekna af bílastæðagjöldum á meðan tilgangurinn með slíkum gjöldum væri að afla tekna til að byggja upp svæðið í Reykjadal og nágrenni, s.s. að vernda umhverfið og byggja upp aðstöðu fyrir stöðugan straum ferðamanna sem fer um svæðið. Því höfnuðu bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis þessari nálgun í samningum og gerðu auk þess athugasemdir við að markmið samningsins væru óljós.

 

Næstu drög samningsins voru svo lögð fyrir bæjarráð nú í sumar. Sem betur fer hafði meirihluti Sjálfstæðismanna fallið frá fyrri tillögu sinni um að veita Reykjadalsfélaginu einkarétt á innheimtu bílastæðagjalda og að félagið tæki meira en helming tekna til sín. En, þess í stað setti meirihlutinn inn í samninginn að Hveragerðisbær myndi greiða Reykjadalsfélaginu kr. 1.450.000 á mánuði fyrir þjónustu félagsins. Það þýðir að fyrir hvern dag mun Hveragerðisbær greiða tæplega kr. 50.000 fyrir þjónustuna eða í heild um 174 m.kr. fyrir þau tíu ár sem samningurinn á að gilda. Hvorki meira né minna! Fulltrúi Okkar Hveragerðis í bæjarráði greiddi atkvæði gegnum þessum samningi en hann var engu að síður samþykktur af meirihluta Sjálfstæðisflokksins.

 

Og hvaða þjónusta er það sem íbúar Hveragerðis munu greiða kr. 50.000 á dag fyrir til Reykjadalsfélagsins næstu 10 árin? Það er rekstur salernisaðstöðu fyrir ferðamenn, aðstaða fyrir bílastæðaverði Hveragerðisbæjar, rekstur þjónustumiðstöðvar, umhirða á göngustígum Árhólmasvæðisins og bílastæðum og aðgang Hveragerðisbæjar að húsnæðinu tíu sinnum á ári.

 

Að mati undirritaðra er mikilvægt að tryggja salernisaðstöðu fyrir þá ferðmenn sem eiga leið um svæðið en það voru margar aðrar leiðir færar til að leysa það fyrir lægri upphæð á mánuði. Það er líka óljóst hvaða tilgangi þjónustumiðstöð sem Hveragerðisbær greiðir Reykjadalsfélaginu fyrir að reka við Árhólma eigi að þjóna? Hveragerðisbær rekur nú þegar upplýsingamiðstöð í Sunnumörk sem er fullfær um að gefa ferðamönnum allar þær upplýsingar sem þeir leita eftir um Hveragerði og nærsvæði. Landverðir, sem eru á vegum Umhverfisstofnunar í Reykjadal á sumrin, hafa meðal annars það hlutverk að fræða gesti um svæðið og þar sem Reykjadalur og nágrenni er í friðlýsingarferli er fyrirséð að landverðir komi til með að hafa meiri viðveru á svæðinu yfir allt árið. Það verður því að öllum líkindum áfram hlutverk Umhverfisstofnunar að sjá um aukna fræðslu og gæslu á svæðinu sem líklega myndi falla undir rekstur þjónustumiðstöðvar og því rétt að Reykjadalsfélagið snúi sér þangað varðandi samning um slíkan rekstur. Einnig má benda á að til eru rafrænar lausnir fyrir innheimtu bílastæðagjalda sem krefjast ekki viðveru bílastæðavarða. Ekki er ólíklegt að slíkar lausnir verði fyrir valinu þegar kemur að því að sveitarfélagið velji hvernig skuli standa að innheimtu bílastæðagjalda og því engin þörf á aðstöðu fyrir bílastæðaverði á svæðinu. 

 

Okkur þykir einnig mjög miður að meirihluti Sjálfsstæðismanna í Hveragerði hafi ekki farið í samstarf um uppbyggingu á Árhólmasvæðinu við Sveitarfélagið Ölfus og Landbúnaðarháskóla Íslands sem eru stórir hagaðilar í þessu máli. Það liggur fyrir að allir ferðamennirnir sem fara um Árhólmasvæðið og munu greiða bílastæðagjald til Hveragerðisbæjar eru á leiðinni í Reykjadalinn, sem er innan sveitarfélagamarka Ölfuss og í eigu Landbúnaðarháskólans. Við í Okkar Hveragerði teljum að slíkt samstarf um uppbyggingu og rekstur bílastæðis og salerna hefði verið mun affarasælla og réttlátara fyrir alla hagaðila svæðisins heldur en núverandi fyrirkomulag býður upp á.

 

Þess má geta að undanfarin ár hafa árlega farið um svæðið um 300.000 gestir á leið sinni upp í Reykjadal og er viðbúið að þessi fjöldi ferðamanna muni áfram fara um svæðið þegar veirufaraldurinn hefur gengið yfir heimsbyggðina og ferðamannaiðnaðurinn hefur náð sér á strik að nýju. Það eru því mikil viðskiptatækifæri fyrir lóðarhafa að Árhólmum 1 og hefur Reykjadalsfélagið kynnt bæjarfulltrúum spennandi hugmyndir um uppbyggingu á lóðinni sem án efa munu draga að gesti og stuðla að farsælum rekstri. Það er því á engan hátt réttlætanlegt að Hveragerðisbær styrki sérstaklega eitt fyrirtæki í bænum umfram annað á þann hátt sem lagt er upp með í samningum.

 

Kaup á ónýtu húsi

Á fundi bæjarráðs Hveragerðis 20. ágúst sl. ákvað meirihluti Sjálfstæðisflokksins að kaupa ónýtt hús í Hveragerði, Bláskóga 1, á 19,5 m.kr. Húsið er 50 fermetrar að stærð og fasteignamat þess er tæpar 16 m.kr. Stefnt er að því að rífa húsið á kostnað Hveragerðisbæjar og úthluta lóðinni til nýbyggingar, líklega fyrir parhús. En hvernig lítur þá þetta reikningsdæmi út? Kostnaður við niðurrif hússins og förgun byggingarefnis getur líklega orðið um 2-4 m.kr. fyrir Hveragerðisbæ. Mögulega gæti bærinn fengið um 9-10 m.kr. í byggingargjöld ef byggt verður parhús á lóðinni. Þá verður fyrirséð tap bæjarins af þessum samningi 12-13 m.kr.!

 

Fulltrúi Okkar Hveragerðis í bæjarráði greiddi atkvæði gegn þessum samningi en hann var samþykktur af meirihluta Sjálfstæðisflokksins. Ekki er ljóst hvers vegna Sjálfstæðismenn töldu mikilvægt að kaupa þetta ónýta hús með svo miklu tapi sem raun ber vitni, tekjutapi sem bitnar á sjóðum sem íbúar Hveragerðis eiga. Ef tilgangurinn hefur verið að kaupa hús í lélegu ásigkomulagi til að rýma fyrir nýju húsi þá er það einfaldlega ekki hlutverk sveitarfélags að standa í slíkum gjörningum. Eigendur fasteigna bera ábyrgð á sínum eignum og það er ekki hlutverk hins opinbera, í þessu tilfelli Hveragerðisbæjar, að leysa einstaka eigendur undan skyldum sínum á þennan hátt. Fjármagn Hveragerðisbæjar á að nota í þjónustu við íbúa Hveragerðis.

 

Njörður Sigurðsson

Þórunn Pétursdóttir

bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis

Að fara með vald

Birt á DFS.is 13. apríl 2021

Í sveitarfélögum kjósa íbúar sér fulltrúa til að fara með vald sitt við rekstur viðkomandi sveitarfélags. Þetta fyrirkomulag er kallað fulltrúalýðræði, enda sækja þeir aðilar sem kjörnir hafa verið til setu í sveitarstjórnum umboð sitt til íbúa sveitarfélagsins, og fara með vald sitt fyrir þeirra hönd. Þannig er fulltrúalýðræðið í eðli sínu valdaframsal frá hinum almenna borgara til kjörinna fulltrúa. Í sveitarfélögum er svo þetta umboð endurnýjað á fjögurra ára fresti. Kjörnum fulltrúum eru svo settar ýmsar skorður um hvernig þeir fara með þetta vald sem þeim er fengið. Þannig eiga kjörnir fulltrúar að fara að þeim lögum sem stjórnsýslunni eru settar, taka ákvarðanir sem byggja á almannahagsmunum og að ákvarðanir séu rannsakaðar til hlítar, þær séu byggðar á jafnfræði og rökum og að almennt sé gagnsæi í öllum málum stjórnsýslunnar.

 

Dæmisaga úr Hveragerði

Nýlegt dæmi um meðferð valds, eða öllu heldur um hvernig kjörnir fulltrúar eiga ekki að fara með vald, er að finna í Hveragerði. Sú dæmisaga umhverfist um tiltölulega lítið og einfalt mál en hefur orðið að flóknu og ógagnsæju máli í meðferð meirihluta Sjálfstæðisflokksins í Hveragerði. Dæmisagan sem hér fer á eftir er um reglur og úthlutun leyfa til reksturs matarvagna í sveitarfélaginu.

 

Reglur verða til

Á síðasta ári ákvað bæjarstjórn að setja reglur utan um rekstur matar- og söluvagna (samþykkt um götu- og torgsölu) eftir að erindi barst bæjaryfirvöldum um áhuga rekstraraðila til að koma slíkum rekstri á koppinn. Bæjarstjóra var falið að gera drög að reglum. Fyrstu drögin voru þó þannig að erfitt hefði verið fyrir flesta rekstraraðila að reka matarvagn undir þeim skilyrðum sem voru í þeim.

 

Reglurnar voru svo samþykktar í október 2020 og voru þá verulega breyttar frá því sem þær voru í upphafi eftir meðferð bæjarfulltrúa. Það sem eftir stóð og var ekki áhugi á að breyta hjá meirihluta Sjálfstæðisflokksins var að ekki mátti tengja vagnana við vatns- og fráveitu og leyfisgjald fyrir langtímaleyfi sölu- og matarvagna var verulega hátt og ekki í takti við gjöld annarra sveitarfélaga, eða kr. 300.000 á ári. Ítrekað var meirihlutinn spurður út í þessi tvö atriði en lítið var um svör. Rétt er að benda á að um innheimtu gjalda hjá sveitarfélögum gildir að ekki má innheimta hærri gjöld fyrir þjónustuna en það sem kostar að veita hana. Í þessu tilfelli þýðir það að aðeins má taka gjald fyrir þann kostnað sem sveitarfélagið ber af leyfisveitingunni. Um þetta háa gjald gat meirihluti Sjálfstæðisflokksins ekki svarað fyrir. Auk þess benti undirritaður á við afgreiðslu reglnanna í bæjarráði að við úthlutun leyfa, sem eru takmörkuð gæði, þurfi mat á umsóknum að byggjast sem mest á hlutlægu mati en ekki huglægu eins og gert er ráð fyrir í reglunum. Slíkt er ógagnsætt.

 

Samráðsferli vantaði

Margt í aðdraganda að setningu reglnanna má gagnrýna og er það mat undirritaðs að málið hefði mátt vinna miklu betur. Í ljósi þessarar reynslu lagði bæjarmálafélagið Okkar Hveragerði fram tillögu á fundi bæjarstjórnar í janúar síðastliðnum að reglur og samþykktir sem Hveragerðisbær ætlar að setja fari í opið umsagnarferli meðal íbúa. Þannig væri með samráði við íbúa hægt að gera stefnumarkandi reglur og samþykktir sveitarfélagsins betri og að tryggja að öll sjónarmið sem máli skipta komi fram við vinnslu mála. Af umræðum í bæjarstjórn að ráða voru aðrir bæjarfulltrúar hræddir við að slíkt samráð myndi flækja málin og það myndi verða til þess að lengja afgreiðslu á reglum og samþykktum. Í þessari afstöðu felst töluvert skilningsleysi og mögulega vantrausti á eðli samráðs við íbúa (sem reyndar er hvatt til í sveitarstjórnarlögum). Þess má geta að málinu var vísað til umræðu í bæjarráði og hefur málið einu sinni verið rætt á fundi og ekkert gerst í málinu síðan.

 

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið á móti matarvögnum

„Ég verð að viðurkenna að í fyrstu var ég frekar andvígur því að leyfa slíka starfsemi og forsendurnar voru þær að hér hafa aðilar verið að reyna að reka og byggja upp starfsemi þar sem lagt er í verulega vinnu og fjárfestingar til að koma henni á koppinn.“ Svo skrifaði oddviti Sjálfstæðisflokksins í Hveragerði og forseti bæjarstjórnar á Facebook-síðuna Hvergerðingar fyrir nokkru og vísaði þannig í að rekstur í húsum með grunni væri meira virði en rekstur í vögnum á hjólum. Á sama hátt hafði bæjarstjóri tjáð sig nokkrum misserum áður og sagði m.a.: „Við þá sem hafa haft samband við mig hef ég sagt að ég myndi sennilega ekki mæla með svona vögnum en hef hvatt þá til að senda erindi til bæjarráðs.“ Þannig er ljóst að meirihluti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn var ekki hlynntur að heimila rekstur slíkra sölu- og matarvagna. Það skýrir líklega hvers vegna fyrstu drög að reglum um götu- og torgsölu voru hamlandi fyrir rekstraraðila og hvers vegna samþykktar reglur eru enn nokkuð hamlandi. Þessi skrif leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í Hveragerði eru líka afhjúpandi um að meirihlutanum skortir vilja og sýn til þess að styðja við nýsköpun og fjölbreyttara atvinnulíf í bæjarfélaginu.

 

Smábæjarstjórnsýslan

En það er meira í skrifum forseta bæjarstjórnar og oddvita Sjálfstæðisflokksins í Hveragerði sem er afhjúpandi um hvernig stjórnsýslan er undir meirihluta Sjálfstæðisflokksins og hvernig mál eru afgreidd: „Nú er það engin launung að drifkrafturinn á bakvið þetta mál allt saman var í raun einn einstaklingur í bæjarfélaginu sem hafði áhuga á að setja upp matarvagn og hafði mjög gott orð á sér fyrir góðan mat og kunnáttu á því sviði og hefur staðið mjög vel undir þeim væntingum. Bæjarstjórn var því einhuga um að ganga þessa braut til enda, setja reglur, og skapa þannig grundvöll fyrir starfseminni.“ Þarna opinberar forsetinn hvernig ákvarðanir eru teknar í okkar litla bæjarfélagi, þar sem flestir þekkja flesta: Af því að manneskjan sem um ræðir hafði gott orð á sér fyrir góðan mat og kunnáttu á því sviði var bæjarstjórn einhuga um að skapa grundvöll fyrir starfseminni. Eins gott að bæjarstjórn þekkti til viðkomandi aðila, annars hefði erindinu verið hafnað strax, eða hvað? Slík stjórnsýsla er auðvitað engan vegin boðleg, og sveitarfélag getur ekki boðið íbúum upp á slíka henti-stjórnsýslu.

 

Babb í bátinn

Í lok marsmánaðar kom í ljós að sá aðili sem rak matarvagninn Gauju hefði ákveðið að hætta rekstri. Í kjölfarið birti oddviti Sjálfstæðisflokksins og forseti bæjarstjórnar varnarræðu meirihlutans á opinni Facebook-síðu Hvergerðinga, sem er vitnað til hér að framan. Í varnarræðunni kemur fram að meirihlutanum finnist að sér vegið, í raun hafi meirihlutinn gert allt sem í hans valdi standi til að mæta kröfum viðkomandi aðila. Af skrifum forsetans virðist meirihluti Sjálfstæðisflokksins í Hveragerði líta svo á að hann sé orðið fórnarlamb í þessu máli. Sem sagt að sá sem fer með valdið er fórnarlamb, svo öfugsnúið sem það nú hljómar.

 

„Þetta er, án djóks, instant classic facepalm material. Kapítalistinn var sem sagt í upphafi á móti þessu því einhver fann leið til að selja vöru með hagkvæmari hætti“, skrifaði einn Hvergerðingurinn á Facebook undir færslu forsetans. Það er nefnilega ekki nóg að tala um það á hátíðlegum stundum að ætla að styðja við og ýta undir meiri fyrirtækjarekstur hér í bæ og hampa einkaframtakinu, heldur þarf að sýna það í verki líka. Og það er heldur ekki sveitarfélagsins að ákveða að rekstur í fasteign með föstum grunni sé betri en rekstur fyrirtækis í vagni á hjólum. Sveitarfélagið á einfaldlega að skapa aðstæður þar sem allar tegundir rekstrar, í söluvögnum eða í fasteignum, hefur tækifæri til að blómstra.

 

Reykfyllt bakherbergi?

En hvernig hefur meirihluti Sjálfstæðisflokksins svo reynt að afgreiða málið þegar það er komið í hnút? Jú, með því að boða viðkomandi rekstraraðila á fund með bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins til að ræða málin og finna niðurstöðu sem allir geta verið sáttir við. Og niðurstaðan virðist vera sú að Sjálfstæðismenn hafa boðið viðkomandi að vera inni á lóð einkaaðila en vilja fá leyfisgjöld samt sem áður og jafnframt að heimila að tengja vagninn við vatns- og fráveitu. Þetta er gert þó að Sjálfstæðisflokkurinn í Hveragerði hafi verið alveg á móti því við vinnslu á reglunum að heimila að tengja matarvagna við vatns- og fráveitu og ekki ansað athugasemdum sem komu fram við vinnslu reglnanna. Þannig að fyrsta leyfið, sem er veitt til götu- og torgsölu samkvæmt nýsamþykktum reglum, brýtur gegn reglunum. Þó að undirritaður telji að veita eigi matarvögnum tengingu við vatns- og fráveitu þá á ekki að afgreiða málið svona. Það á að breyta reglunum en ekki fara fram hjá þeim. Þá sýna þessi vinnubrögð mjög vanþroskaða stjórnsýslu, þar sem pólitískir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins virðist hafa tekið málið úr venjubundnu ferli stjórnsýslunnar, þ.e. leyfisveitingaferlinu, og haft áhrif á það til hliðar við ferlið.

 

Valdið er hjá íbúum

Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með viðbrögðum íbúa í Hveragerði í þessu matarvagnamáli. Þar hafa komið fram ólíkar skoðanir eins og gengur, en flestir hafa þó furðað sig á ógagnsæjum málarekstri bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Því er rétt að minna á að valdið er í raun hjá íbúum í öllum málum sveitarfélagsins, þó að þeir framselji valdið til bæjarfulltrúa á milli kosninga. Það er því íbúa að veita ríkjandi meirihluta aðhald á hverjum tíma. Það er líka íbúa að kjósa aðila í sveitarstjórn sem fylgja leikreglum stjórnsýslunnar og viðhafa gagnsæi í sínum verkum, fulltrúa sem taka ákvarðanir með almannahagsmuni að leiðarljósi og byggi þær ákvarðanir á jafnræði. Næst er kosið til sveitarstjórnar í Hveragerði í maí árið 2022.

 

Njörður Sigurðsson

bæjarfulltrúi Okkar Hveragerðis

Húsnæði í Hveragerði

Birt í Dagskránni og á DFS.is 13. apríl 2021

Á dögunum var húsnæðisáætlun Hveragerðisbæjar lögð fram til síðari umræðu í bæjarstjórn. Í henni eru greinargóðar upplýsingar um stöðu á húsnæðismarkaði í Hveragerði og áætlanir um íbúðaþörf til ársins 2027. Húsnæðisáætlun er forsenda þess að sveitarfélagið geti unnið skipulega að uppbyggingu auk þess að hafa það markmið að stuðla að auknu húsnæðisöryggi heimila í Hveragerði. Húsnæðisáætlun er líka stefnuyfirlýsing sveitarfélags um hvernig mæta á húsnæðisþörf til skemmri eða lengri tíma hjá öllum samfélagshópum. Hægt er að kynna sér húsnæðisáætlun Hveragerðisbæjar á vef sveitarfélagsins.

 

Félagslegt leiguhúsnæði

Í húsnæðisáætlun Hveragerðisbæjar er gert ráð fyrir að til ársins 2027 sé þörf á sjö félagslegum leiguíbúðum. Þessi tala virðist vera fundin út frá því hversu margar umsóknir eru nú um félagslegt leiguhúsnæði hjá Hveragerðisbæ. Eins og staðan er nú á Hveragerðisbær þrjár félagslegar leiguíbúðir en þær ættu að vera 16 talsins ef þær væru hlutfallslegar jafnmargar og hjá Sveitarfélaginu Árborg og Ölfusi. Þegar horft er til stöðu sveitarfélaga á landsvísu er fjöldi félagslegra leiguíbúða á hverja þúsund íbúa með þeim lægstu í Hveragerði, jafnvel sveitarfélögin Garðabær og Seltjarnarnesbær, sem jafnan eru nefnd sem dæmi um sveitarfélög sem standa sig mjög illa í þessum málum, eru betur sett þegar kemur að framboði á félagslegu húsnæði á hverja þúsund íbúa. Það er sameiginleg ábyrgð allra sveitarfélaga að sjá til þess að nægt framboð sé á félagslegu leiguhúsnæði í öllum sveitarfélögum. Sveitarfélög sem ekki bjóða upp á nógu margar félagslegar leiguíbúðir eru þannig að velta ábyrgðinni yfir á önnur. Hveragerðisbær þarf því að axla sína ábyrgð og standa sig í þessum málum. Framboð á félagslegu leiguhúsnæði í Hveragerði á auðvitað að vera sambærilegt og í nágrannasveitarfélögunum.

 

Almennar leiguíbúðir

Í húsnæðisáætlun Hveragerðisbæjar er jafnframt gert ráð fyrir að þörf sé að sex almennum leiguíbúðum til ársins 2027 og er miðað við að fjöldi leiguíbúða af nýjum íbúðum í bæjarfélaginu verði ekki lægra en 15%. Þessi talan er fundin út frá því hvernig leigumarkaðurinn er í Hveragerði og á landinu almennt. Á Íslandi búa um 16-18% af íbúum 18 ára og eldri í leiguíbúðum og í áætluninni er leitt líkum að því að um 7-12% íbúa í Hveragerði séu í leiguhúsnæði. Á Norðurlöndunum og víða í Evrópu er hlutfall íbúa í leiguhúsnæði mun hærra en þekkist hér á landi og er til að mynda áætlað að um 35% Dana búi í leiguhúsnæði. Með það að markmiði að stuðla að auknu húsnæðisöryggi í sveitarfélaginu ætti Hveragerðisbær að hafa það markmið að hlutfall almennra leiguíbúða, s.s. í gegnum leigufélög sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða, verði mun hærri en 15%. Með því myndu bæjaryfirvöld auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði fyrir efnaminni fjölskyldur.

 

Húsnæði fyrir alla

Í umræðum í bæjarstjórn benti undirritaður á að forsendur og stefna húsnæðisáætlunarinnar er varðar félagslegt og almennt leiguhúsnæði mætti ekki nægilega vel því markmiði að tryggja öllum samfélagshópum öruggt og gott húsnæði. Með því að leggja mikla áhersla á séreignastefnu í húsnæðismálum og minni á uppbyggingu leiguhúsnæðis er hætta á því að þörfum efnaminni hópa samfélagsins sé ekki mætt. Sveitarfélögin hafa mikið um það að segja hvort og hvernig heilbrigður leigumarkaður þróast og þurfa þau að beita sér í þeim málum.

 

Njörður Sigurðsson

bæjarfulltrúi Okkar Hveragerðis

Hugleiðingar um verndun byggðar og húsa í Hveragerði

Birt á Krumminn.is 1. nóvember 2020

Á vettvangi bæjarstjórnar hefur undirritaður reglulega bent á mikilvægi þess að varðveita einkenni byggðarinnar í Hveragerði, þ.e. mannvirki og náttúruna sem er okkur svo samofin. Má þar t.d. nefna annars vegar hugmyndir um að taka hluta af hverasvæðinu undir bílastæði fyrir Hveragerðiskirkju og hins vegar hugmyndir um varðveislu gróðurhúsa sem eru eitt megineinkenni bæjarfélagsins. Verndun húsa og byggðar hefur margvíslegan tilgang. Þannig getur verið leitast við að vernda tiltekna götumynd sem endurspeglar tímabil í sögu bæjarfélagsins og einstök hús geta haft menningarlegt og sögulegt gildi. Sögulegt umhverfi getur haft mikið félagslegt og efnahagslegt gildi fyrir sveitarfélög. Eldri hverfi geta orðið eftirsóttur áfangastaður ferðamanna og eftirsóttur staður til að búa og þar með aukið verðmæti fasteigna á slíkum svæðu. Því þarf einnig að huga að vernd byggðamynsturs, götumyndar og húsa í Hveragerði og er nú eitt slíkt mál í ferli innan bæjarkerfisins. Úrslit þess munu líklega skapa fordæmi um hvernig bæjaryfirvöld vilja horfa til þessara mála.

 

Á fundi bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar 8. október sl. var tekið fyrir erindi frá eiganda hússins Skaftafells (Heiðmörk 23) um leyfi til að rífa húsið og byggja nýtt í staðinn á lóðinni. Bæjarstjórn ákvað að grenndarkynna framkvæmdina í samræmi við skipulagslög og hefur málið því ekki enn hlotið fullnaðarafgreiðslu.

 

Húsið Skaftafell (Heiðmörk 23) var byggt árið 1943 samkvæmt upplýsingum um brunavirðingu hússins. Skaftafell er því með elstu húsum bæjarins. Húsið er lítið bárujárnsklætt íbúðarhús með valmaþaki sem var einkennandi fyrir byggðina sem myndaðist í Hveragerði á árunum 1930-1950 eða þegar þéttbýli var að myndast þar. Mörg húsanna sem voru reist á þessu tímabili voru lítil og lágreist, sum voru byggð sem sumarhús fyrir höfuðborgarbúa en einnig risu fjöldi íbúðarhúsa eins og húsið Skaftafell. Húsin sem standa norður af Skaftafelli í Bláskógum voru byggð á árunum 1940-1944 og mynda því heildstæða götumynd og byggðamynstur og endurspegla vel þetta byggingarlag. Mörg húsanna í Frumskógum (Skáldagötunni) eru jafnframt einkennandi fyrir byggðamynstur þessa tímabils þegar Hveragerði var að verða til.

 

Húsið Skaftafell stendur innan reits sem nýtur hverfisverndar samkvæmt aðalskipulagi Hveragerðis. Reiturinn afmarkast af Dynskógum, Varmahlíð, Breiðumörk og Heiðmörk. Tilgangur hverfisverndar á þessum stað er að varðveita byggðamynstur og götumynd. Um skilamála vegna hverfisverndar segir í aðalskipulagi:

 

„Hverfisverndin felur í sér að varðveita beri byggðarmynstur og götumynd reitsins. Ef  byggja á við hús eða fjölga þeim, skal það alla  jafna gert á baklóðum húsa þannig að það hafi sem minnst áhrif á götumyndina. Einnig er  heimilt að skipta lóðum þar sem aðstæður leyfa  að undangengnu deiliskipulag. Viðbyggingar og  ný hús skulu taka mið af formi og hlutföllum núverandi byggðar“

 

Það er því vandséð að bæjarstjórn geti fallist á ósk eiganda Skaftafells um að rífa húsið enda myndi það raska byggðamynstri og götumynd verulega og vera í andstöðu við aðalskipulag Hveragerðisbæjar. Það eru ekki mörg hús eftir í Hveragerði frá þessum tíma og mun færri sem enn eru nánast óbreytt frá því að þau voru byggð eins og húsið Skaftafell. Því er mikilvægt að stuðla að vernd hússins og þar með byggðamynstri götunnar.

 

Í þessu samhengi er vert að hafa í huga þá stöðu sem nágrannar okkar Hvergerðinga, Selfyssingar, hafa komið sér í. Í gegnum tíðina hefur ekki verið hugað sérstaklega að verndun eldri húsa á Selfossi, eða að minnsta kosti hafa verið rifin og fjarlægð hús og mannvirki sem menn myndu vilja að væru enn uppistandandi. Er nú svo komið að nú standa yfir framkvæmdir á nýjum miðbæ á Selfossi sem byggist upp á eftirlíkingum af gömlum húsum, m.a. til að skapa notalegt andrúmsloft og endurheimta (ef það er hægt) hús sem áður stóðu á Selfossi. Ef við hugum ekki að vernd byggðar og húsa í Hveragerði kunnum við Hvergerðingar að standa í sömu sporum og Selfyssingar eftir nokkur ár og byggðar verði eftirlíkingar af húsum sem áður stóðu vítt og breytt um bæjarfélagið. Það viljum við væntanlega ekki. Heillavænlegra er að stuðla að vernd gömlu húsanna okkar og götumyndar sem við teljum að sé mikilvægt að varðveita.

 

Njörður Sigurðsson

bæjarfulltrúi Okkar Hveragerðis

Sameining Hveragerðis og Ölfuss

Birt í Dagskránni og á DFS.is 7. desember 2019

Sjálfstæðismenn í Ölfusi, þið hafið ekkert að óttast nema óttann sjálfan

Á fundi bæjarstjórnar Ölfuss 28. nóvember sl. var tekið fyrir erindi frá Hveragerðisbæ um sameiningaviðræður sveitarfélaganna tveggja. Erindi um sameiningarviðræður hafði verið samþykkt samhljóða í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar þar sem bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Okkar Hveragerðis og Framsóknarflokksins lýstu einlægum vilja til viðræðna. Skemmst er frá því að segja að meirihluti Sjálfstæðisflokksins í Ölfusi hafnaði ósk Hveragerðisbæjar en minnihluti O-listans vildi hefja viðræður og kanna hvort að flötur væri á sameiningu sveitarfélaganna.

 

Sameining sveitarfélaga

Til ársins 1946 voru Hveragerði og Ölfus eitt sveitarfélag, í Ölfushreppi. Það ár klauf hin nýja byggð í Hveragerði sig frá Ölfushreppi og myndaði sérstakt sveitarfélag, Hveragerðishrepp.  Síðan hafa verið tvö sveitarfélög í Ölfusi sem nú bera stjórnsýsluheitin Hveragerðisbær og Sveitarfélagið Ölfus. Miklar breytingar hafa orðið á sveitarstjórnarstiginu síðustu frá því að Ölfusi var skipt í tvö sveitarfélög og hefur sveitarfélögum t.d. fækkað úr 229 í 72 frá árinu 1950. Ástæðan er fyrst og fremst að verkefni sveitarfélaga eru orðin fleiri og umfangsmeiri og stærri sveitarfélög hafa meiri slagkraft en þau minni til að veita þjónustu til íbúa og þróa sveitarfélagið í nútímasamfélagi.

 

Ölfusið sameinað á ný

Landfræðilega er Hveragerðisbær umlykið Sveitarfélaginu Ölfusi og er í raun lítil eyja í miðju Ölfusi, aðeins 9 ferkílómetrar að stærð á meðan Sveitarfélagið Ölfus er 740 ferkílómetrar. Upp úr 1950 byrjaði byggð að myndast í Þorlákshöfn sem er nú meginbyggðakjarninn í Sveitarfélaginu Ölfusi. Þann 1. janúar 2019 bjuggu 2.628 íbúar í Hveragerðisbæ og 2.153 íbúar í Sveitarfélaginu Ölfusi og hefur íbúum í báðum sveitarfélögum fjölgað verulega á árinu sem er að líða. Sameinað sveitarfélag myndi því telja um 5.000 manns og yrði næst stærsta sveitarfélagið á Suðurlandi á eftir Sveitarfélaginu Árborg. Það yrði gífurlega öflugt með fjölbreytta þjónustu og mikla möguleika til vaxtar hvort sem litið er til þjónustu við íbúa, auðlinda, menningar eða atvinnusköpunar. Slagkraftur sameinaðs sveitarfélags yrði mun meiri sem myndi fyrst og fremst nýtast til uppbyggingar fyrir alla íbúa.

 

Sjálfstæðismenn hafna 827 milljónum

Með því að útiloka sameiningu sveitarfélaganna tveggja eru Sjálfstæðismenn í Ölfusi líka að hafna framlagi upp á 827 milljónir króna sem fengist frá Jöfnunarsjóði ef af sameiningu yrði. Til samanburðar má geta þess að sú upphæð nemur tekjum Ölfuss vegna fasteignagjalda í tvö og hálft ár. Einnig má nefna að sex deilda leikskóli í Hveragerði kostaði árið 2017 um 700 milljónir króna. Hér er því um verulegar fjárhæðir að ræða sem furðulegt er að Sjálfstæðismenn í Ölfusi hafni án þessa að vera tilbúnir að taka umræðu um sameiningu við bæjarfulltrúa Hveragerðisbæjar.

 

Ekkert að óttast

Í raun þurfa Sjálfstæðismenn í Ölfusi ekki að óttast sameiningaviðræður. Hvað getur komið út úr slíkum viðræðum sem menn geta óttast? Hafa verður í huga að með ósk um sameiningaviðræður er ekki verið að taka ákvörðun um sameiningu sveitarfélaganna heldur að kannað verði hvort að grundvöllur sé fyrir slíku með hagsmuni íbúa að leiðarljósi. Það er auðvitað svo í höndum íbúa beggja sveitarfélaga að taka ákvörðun um sameiningu þegar viðræðum er lokið, ef þær komast svo langt.

 

Njörður Sigurðsson

bæjarfulltrúi Okkar Hveragerðis

Hveragerðisbær vílar og dílar með vörumerkið Eden

Birt í Dagskránni og á DFS.is 25. júlí 2019

Hveragerðisbær vílar og dílar með vörumerkið Eden

Á fundi bæjarstjórnar Hveragerðis 13. júní sl. var tekin fyrir ósk eigenda nýrrar ísbúðar í Hveragerði að nota vörumerkið Eden sem Hveragerðisbær hefur einkaleyfi á í flokki veitingaþjónustu og garðræktar. Þetta mál er um margt sérkennilegt og snýst í raun um hvort að verkefni sveitarfélags sé að kaupa, eiga og úthluta vörumerkjum til einkaaðila og í raun vera að skipta sér af því hvað fyrirtæki mega heita.

 

Vörumerkið Eden keypt 2010

Aðdraganda málsins má rekja til 24. júní 2010 þegar bæjarstjóri Hveragerðisbæjar sendi inn umsókn til Einkaleyfastofu um skráningu á vörumerkinu Eden. Á þeim tíma var verið að byggja upp Eden að nýju eftir erfiðan rekstur árin á undan og opnaði Eden að nýju í byrjun júlí 2010. Þannig keypti bæjarstjóri Hveragerði vörumerkið Eden nokkrum dögum áður en Eden opnaði að nýju undir því heiti. Það var svo 22. júlí 2011 sem Eden varð eldri að bráð og brann til kaldra kola.

 

Samkvæmt upplýsingum í bókun meirihluta Sjálfstæðisflokksins í Hveragerði á bæjarstjórnarfundi 13. júní sl. var vörumerkið Eden keypt árið 2010 til þess að vörumerkinu yrði haldið í Hveragerði og „það notað ef og þegar starfsemi er líktist sem mest þeirri starfsemi sem áður var í Eden yrði komið á laggirnar“. Þessi söguskoðun stenst þó enga skoðun þar sem vörumerkið var keypt áður en Eden brann og starfsemi lagðist niður eins og hefur komið fram.

 

Óeðlileg afskipti af atvinnulífinu

Það er mikilvægt að stjórnmálamenn, sem og embættismenn, hagi störfum sínum þannig að þeir leggi ekki stein í götu einkaaðila sem eru að byggja upp fyrirtæki og standa í rekstri umfram það sem nauðsynlegt er til að gæta almannahagsmuna. Augljóst er að eignarhald sveitarfélags á vörumerkjum einkafyrirtækja og afskipti af því hvað fyrirtæki mega heita er ekki til að gæta almannahagsmuna. Málið er einfaldlega að sveitarfélag á ekki að eiga vörumerki í þeim tilgangi að úthluta þeim til aðila sem meirihluti sveitarstjórnar telur þóknanlegt til að nota það. Það er heldur ekki hlutverk sveitarfélags að vera allt umlykjandi aðili sem kaupir vörumerki fyrirtækja sem enn eru í rekstri. Það eru óeðlileg afskipti af atvinnulífinu.

 

Hveragerðisbær selji vörumerkið Eden

Á fundi bæjarstjórnar lögðu bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis til að Hveragerðisbær seldi vörumerkið Eden og þá gætu allir sem áhuga hefðu að eiga og nota vörumerkið möguleika á að kaupa það. Þessa tillögu felldi meirihluti Sjálfstæðisflokksins ásamt fulltrúa Framsóknarflokksins. Jafnframt höfnuðu sömu aðilar ósk eigenda ísbúðarinnar að fá að nota vörumerkið Eden á fyrirtæki sitt. Með þessu kann meirihlutinn að hafa sett bæjarstjórn í vanda þegar kemur að því að ákveða hvernig rekstur sé þessu heiti þóknanlegt. Verður það að vera veitingaþjónusta í gróðurhúsi? Verða að vera spilakassar í húsinu og vélapi eins og var í Eden? Eða útskornar innréttingar eftir einn af listamönnum bæjarins? Hvenær verður fyrirtæki nógu verðugt til að bera heitið Eden? Slíkt mat verður alltaf huglægt. Nú liggur þetta huglæga mat hjá meirihluta Sjálfstæðisflokksins í Hveragerði, að ákveða hver fái vörumerkið Eden til notkunar. Hvergerðingar hljóta að spyrja hvort að það sé eðlileg og gagnsæ stjórnsýsla.

 

Njörður Sigurðsson

bæjarfulltrúi Okkar Hveragerðis

Nýr meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í Hveragerði?

Birt í Dagskránni og á DFS.is 1. júní 2018

Nýr meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í Hveragerði?

Nýverið gerðu Frjálsir með Framsókn samkomulag við meirihluta Sjálfstæðisflokksins og tryggðu sér þannig fjögur nefndarsæti af þeim átta sem tilheyra minnihluta bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar. Báðir flokkarnir gera mikið úr því að þetta hafi verið til að tryggja að raddir allra kjörinna fulltrúa heyrist í nefndum bæjarins og kalla þetta lýðræði. Það sem þau hafa sleppt að nefna er að á sama tíma og Framsókn tók ákvörðun um að vinna með meirihlutanum var flokkurinn enn í samningaviðræðum við Okkar Hveragerði um skiptingu nefndarsætanna án þess að upplýsa um að þau væru búin að gera samkomulag við Sjálfstæðisflokkinn. Það geta ekki talist traust eða fagleg vinnubrögð af hálfu Framsóknar.

 

Skipting nefndarsæta

Í Hveragerði eru fjórar fastanefndir og í hverri þeirra sitja fimm pólitískt skipaðir fulltrúar. Meirihluti bæjarstjórnar (Sjálfstæðisflokkurinn) skipar þrjá aðila í hverja nefnd til að fylgja eftir sínum áherslum og minnihlutinn skipar tvo fulltrúa í hverja þeirra. Okkar Hveragerði fékk þriðjung allra greiddra atkvæða í nýafstöðnum kosningum og tryggði sér þannig fjögur af nefndarsætum minnihlutans en semja þarf um skiptingu hinna fjögurra sætanna. Ef ekki næst samkomulag gera sveitarstjórnarlög ráð fyrir að hlutkesti á milli allra flokka í bæjarstjórn ráði því hvar fimmta nefndarsætið í hverri nefnd lendir.

 

Aðeins eitt nefndarsæti

Í ljósi mikils muns á kjörfylgi Okkar Hveragerðis (33%) og Framsóknar (14,5%) fór Okkar Hveragerði fram á að fá eitt af þessum fjórum nefndarsætum sem þurfti að semja um. Það hefði þýtt að Framsókn hefði átt kjörinn fulltrúa í þremur nefndum en áheyrnarfulltrúa í þeirri fjórðu. Þessu hafnaði Framsóknarflokkurinn og taldi eðlilegt að þeir 215 manns sem kusu flokkinn hefðu jafnmarga fulltrúa í nefndum og þeir 489 sem kusu Okkar Hveragerði. Framsókn vildi því láta reyna á hlutkesti sem gæti orðið til þess að meirihluti Sjálfstæðisflokksins fengi fleiri fulltrúa í hverri nefnd í stað þess að vinna með Okkar Hveragerði í að efla minnihlutann og skipta þessum fjórum nefndarsætum í takt við kjörfylgi.

 

Sátu á upplýsingum

Í samningaviðræðum við Framsókn lagði Okkar Hveragerði til við Framsókn að hlutkestið yrði aðeins á milli þessara tveggja flokka. Á meðan beðið var eftir svari  fréttist á skotspónum að Framsókn hefði gert samkomulag við Sjálfstæðisflokkinn nokkrum dögum áður og þannig tryggt sér þessi fjögur nefndarsæti. Þetta gerði Framsókn án þess að upplýsa Okkar Hveragerði um ákvörðun sína og slíta viðræðunum eins og eðlilegt hefði verið að gera.

 

Er Framsókn í meirihluta næstu fjögur árin?

Með samningi Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins um nefndaskipan virðist nýr meirihluti hafa vera myndaður í Hveragerði. Því til stuðnings má nefna að á fyrsta fundi nýkjörinnar bæjarstjórnar kaus Framsókn með tillögu Sjálfstæðisflokksins að ráða pólitískt kjörinn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem bæjarstjóra, þvert á kosningaloforð sitt um faglega ráðinn bæjarstjóra.

 

Öflugt aðhald frá Okkar Hveragerði

Með meirihlutasamstarfi Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins er ljóst að Okkar Hveragerði verður eini flokkurinn í minnihluta í bæjarstjórn Hveragerðisbæjar næstu fjögur árin. Okkar Hveragerði ætlar að veita meirihlutanum öflugt aðhald, sjá til þess að íbúar fái upplýsingar um rekstur bæjarins og að þeir taki þátt í stjórnun hans.

 

Njörður Sigurðsson

Þórunn Pétursdóttir

Friðrik Örn Emilsson

Sigrún Árnadóttir

bottom of page